Það var fjör um helgina

Við fórum á ættarmót um helgina en stoppuðum allt of stutt. Við fórum á laugardagsmorgun kl. 7:30 og vorum komin á Gilsbakka kl. 12:30. Margir fóru svo í fjallgöngu og Baldur fór í fjall/hjólagöngu á eftir liðinu hahaha. Hann nefnilega var alveg klst á eftir þeim svo að hann fór bara á fjórhjólinu upp fjallið þangað til að hann náði þeim en þá hófst gangan erfiða. Brattinn sem að þau fóru var rosalegur og hefði ég aldrei getað farið með. Ég fór í staðin með krökkunum og tengdó í fjöruferð að týna skeljar sem alveg sló í gegn hjá Helenu. Krakkarnir léku sér á trampólíni alla helgina voða gaman og fóru í fótbolta og fundu sér margt annað sér til skemmtunar. Við grilluðum svo höfrung sem  að var eitt það besta kjöt sem að ég hef á ævinni smakkað. Vá hvað ég var södd eftir átið. Ég borðaði alveg yfir mig enda var þetta bara svo rosalega gott. Maður kom sko ekki grannur heim hahaha. Helena er komin enn og aftur með í eyrun og fór að mígleka úr öðru eyrunum á henni en hún lét það ekkert stoppa sig. Hún vildi bara vera úti að leika sér við hina krakkana með buffið sitt. Astminn er frekar mikill ennþá en hún er alltaf jafn dugleg að taka pústið sitt svo að það hjálpar eitthvað.

Hún suðaði og suðaði um að fara til ömmu að fá mjólk að drekka alla leiðina heim Hún átti erfitt með að sætta sig við það að við værum að fara heim af því að mamma og pabbi þyrftu að fara að vinna og hún á leikskólann en svo lagaðist það allt saman  þegar við vorum komin heim.


Þreytan er að ná völdum

Ég er svo þreytt að ég get ekki sofnað. Það er erfitt að geta það ekki þegar viljinn til þess er svona mikill. Ég kannski get sofnað eftir nokkur orð hér á blogginu.

Það er ættarmót um helgina og er mér búið að hlakka mikið til þess að fara en Helena er að veikjast enn eina ferðina svo að við verðum bara að sjá til. Hún er enn og aftur komin með í lungun og er því byrjuð að pústi 3 á dag. Hún er ekki með hita en hún verður svo andstutt þegar hún fær hóstaköstin að ég verð liggur við að hlaupa til hennar og anda fyrir hana. Þetta er alltaf jafn ógnvekjandi en venst þó það venjist illa. Núna sefur hún vært og vonandi verður það þannig í alla nótt. Við tókum hana með okkur út í garð í dag og leifði pabbi hennar að slá með sér sem að hún elskar að gera en svo varð ég fljótlega að fara með hana inn og í bað og svo svona 30 mín eftir baðið sofnaði hún en þá var kl rúmlega 10. Ég vona að hún verði nógu hress til að fara á leikskólann á morgun svo að ég geti aðeins hjálpað Baldri að vinna þó svo að það verði svo sem ekki mikið þá get ég gert eitthvað smá gagn held ég.

Strákarnir fengu einkunnirnar sínar í dag og átti ég sko ekki von á því að þær yrðu góðar en vitið þið að þær voru sko meira en góðar. Alexander hefur bætt sig alveg um helming og hann Andri er gjörsamlega að dúxa. Hann fékk 111 stig en meðal barn í 2 bekk er með svona  70 stig í lestri sem þíðir að hann var með 5,5 sem er í raun 10. Ég var ekkert smá ánægð með strákana mína og vonandi heldur þessi árangur áfram næsta vetur. Ég er líka búin að knúsa þá svo mikið að þeir bara flýja mig þegar þeir sjá mig koma að þeim hahaha. Æji þetta er bara sætt og ég er mjög stolt af þeim báðum.

En jæja ég verð að reyna að fara að sofa enda þarf ég að vakna mjög snemma í fyrramálið. Góða nótt elskurnar og sofið rótt.


Það er mikið sem að nú liggur á mínu hjarta sem að ég verð að koma frá mér!

Það fyrsta er að eftir viðtalið sem tekið var við mig hjá Stöð 2 um daginn er ég búin að reka mig ansi mikið á að það sem að ég lét út úr mér var mjög vitlaust og biðst ég afsökunar á því. Ég hefði betur átt að leita mér enn frekar upplýsinga heldur en ég gerði. Ég er fljótfær á mér og verð að fara að læra af mínum eigin mistökum og afla mér nánari upplýsinga um það sem að ég ætla mér að tjá mig með í framtíðinni.  Ég vona að sömu mistök endurtaki sig aldrei aftur.

Svo er það næsta sem að mér þykir ansi brýnt að koma til skila til allra sem að þetta lesa og helst enn fleiri og það er umferðaöryggi barna. Ég eins og þið eflaust sjáið og hafið lesið hér um áður á þrjú börn á aldrinum 4-13 ára. Miðju barnið mitt sem er 8 ára gamall gutti gerði það sem að ég hef haldið að ég hafi verið dugleg á að minna hann á um daginn og það er að hlaupa ekki eða labba yfir vesturlandsveginn bara til að þykjast vera eitthvað töff. Eftir þetta eða rúmum 1/2 mánuði seinna gerir mun  yngri strákur þetta og verður næstum því fyrir sendiferðabíl. Hér fyrir ofan hverfið er 70 kílómetra hámarkshraði en því miður virða það allt of fáir. Fundur var haldinn í félagsheimilinu hér á Kjalarnesinu í sambandi við þetta og viljum við allir sem að hér búa að eitthvað verði gert eins og t.d. sett hraðahindrun eða hringtorg eða göng fyrir krakkana sem þurfa eitthvað að komast yfir vegin. Það hafa orðið banaslys á þessum stað fyrir einhverjum árum síðan. Ég bara spyr, þurfa fleiri slys að verða áður en eitthvað verður gert? Í gær heyrði ég líka að unglingar hafa átt það til eftir að dimma tekur að fara upp að veginum og annað hvort að leggjast eða að standa bara til að vera töff. Það er ekkert töff að láta keyra á sig, það er ekkert töff að vera drepinn. Ég skil ekki svona en börn eru börn og eru áhrifagjörn og vilja vera flott eða töff á því í augum hinna. Þau hlusta jú kannski sum á foreldrana en því miður ekki öll börn. Það er auðvitað algjörlega okkar foreldrana að blína þetta fyrir þeim en ekki öll börn hlusta á okkur bara hina krakkana sem eru kannski í þeirra augum töff og vinsæl.

En annar fundur verður haldinn í Fólkvangi á fimmtudaginn kl. 20 og vonandi koma einhverjir ráðamenn á hann og hlusta á okkur. Svo verða gerðar aðgerðir á föstudaginn út frá fundinum en því miður get ég ekki verið með í þeim aðgerðum vegna þess að við erum á leið á ættarmót fyrir norðan.

En svo er enn annað. Á morgun mun ég mæta í viðtal hjá Vikunni en hafa þau verið eitthvað verið að fylgjast með blogginu hjá mér og hafa séð að eitthvað málefnalegt er að koma frá mér. Þau eru að sýna baráttu minni um að komast á Tysabry áhuga og eins fá sögu mína frá greiningu og til tímas núna. Ég viðurkenni það hér með að ég er drullu smeyk eftir viðtalið hjá stöð 2 en núna hef ég gögn með mér og allt sem að ég þarf í sambandi við aukaverkanir og verðið og svona. Takk fyrir ábendinguna Sigurbjörg hjá Ms félaginu.

En hér ætla ég að láta staðar numið og fara að slappa af með eiginmanninum.


Tveir erfiðir dagr vonandi á enda sem fyrst!

Ég er andlega og líkamlega búin á því eftir tvo erfiða daga í vinnu og heima. Ég er búin að vera að hjálpa Baldri í vinnunni sem er mjög erfið fyrir mig og svo er ég búin að vera að rembast við að klára kartöflugarðinn og þrífa heima. Ég verð að fara að læra að slaka meira á hmmmm.

En nú er ég á leið heim að grilla og svona og kannski fá mér einn eða fleiri bjóra og hafa það gott. Svo á morgun fer ég að sjá einhverja bíómynd sem að hann Alexander minn leikur í og hlakka ég mikið til að sjá hana. Hann ætlar að verða leikari þegar hann verður stór segir hann og aldrei að vita nema að það verði. Ekki leiðinlegt að eiga frægan son af því að hann ætlar að verða leikari í Hollywood. 

En já ég ætla að fara að drífa mig heim að slappa vel af skal ég ykkur segja. Bað, bjór og svo potturinn, getur það nokkuð verið betra? 


Frábær árangur hjá stráknum ;o)

Eins og ég var búin að tala um þá fórum við fjölskyldan til Akureyrar af því að Alexander átti að keppa í motocrossi. Eftir rosalega baráttu og þrælskemmtilegt moto þá kom hann í mark 7 þ.e. í seinna motoinu. Í fyrsta lenti hann í 9 eftir að hafa verið keyrður niður tvisvar og hann stóð bara upp og hélt áfram og vann sig upp í 9 sæti. Þ.a.l. endaði hann í 8 sæti yfir allt en í 5 sæti í tví gengis hjólum. Skráðir voru 16 keppendur í 85cc þannig að árangurinn var framar öllum vonum.

Það var bara synd að hafa ekki getað tekið neinar myndir af kappanum þar sem að við náðum að eyðileggja myndavélina óvart. Hún hefur fengið eitthvað högg á sig svo að linsan fer ekki út Crying

En svo voru tvíburarnir skírðir um helgina og fengu þeir fallegu nöfnin Mikael Örn og Marinó Örn. Þeir eru alveg gull fallegir og alveg pínu pons litlir. Algjör krútt Halo Við munum nú sjá þá fljótlega aftur af því að ferðinni er heitið til Akureyrar eftir 1/2 mánuð á ættarmót og þá á ég nú von á því að getað stoppað aðeins lengur eða það vona ég. Við erum alveg út keyrð eftir þessa ferð enda vorum við vöknuð á hverjum morgni kl, 7 Sleeping Núna ætlum við að reyna að fara snemma að sofa svo að við verðum nógu hress á morgun til að setja niður öll reynitrén sem að tengdó gaf okkur og sömuleiðis kartöflurnar.Það er alltaf nóg að gera þegar maður hefur svona risa stóran garð. En nú ætla ég að láta þetta duga af því að ég er allt of þreytt til að pikka lengur.

Góða nótt og vonandi sofa allir vel.


Og svo aftur ;o)

Þá erum við á leið norður aftur, Strákurinn keppir á sunnudaginn og spennan er í hámarki. Það er bara eitt sem er alls ekki gott og það er að hann er að drepast í bakinu. Ég er viss um að um er að ræða vaxtaverki sem er ekki ólíklegt þar sem að hann er að stækka mjög hratt eða að hann hefur eitthvað tognað á æfingu sko fótbolta æfingu. En ég mun vera dugleg að bera á hann og nudda vel fyrir keppnina.

Ég var svo þreytt í gær að ég varð þvoglumælt og grút máttlaus. Ég hélt að ég væri að fá enn eitt kastið en þegar ég vaknaði þá var ég orðin nokkuð fín sem betur fer. Ég nenni ekki fleiri köstum. nú er komið nóg og ég vil bara góða pásu núna.

En á morgun á að skýra litlu englastrákana hans Elvars og vonandi verðum við komin til að vera viðstödd. Ég get ekki beðið með að sjá litlu krílin. Ég er svo ánægð fyrir þeirra hönd að þau skulu fá tvo litla stráka loksins. Bara enn og aftur innilega til hamingju með strákana elsku Elvar og Inga og bræðurna Amanda og Eva.

En jæja ég ætla nú að að fara að vinna smá svo að við getum lagt fyrr af stað.

Góða langa helgi allir og hafið það sem allra best. Og gangið hægt um gleðinnar dyr. 


Kast eða hvað!

Ég var úti að taka grasið til að stækka kartöflu garðinn og ég er grútmáttlaus eftir það. Mér líður eins og fæturnir séu að detta af mér og hendurnar líka. Ég er bara gjörsamlega að ganga frá mér dauðri. Ég held að ég fái Baldur og strákana til að gera þetta fyrir mig. Annars er litla skottan ansi dugleg að hjálpa til og þá aðallega í að týna orma. Allir litlu ormarnir heita Helena og eru góðir en stóru ormarnir heita Strákar og þeir bíta segir húnLoL

Það vantar ekki hugmyndaflugið hjá henni. En dugleg er hún nú samt sérstaklega ef að grasflöturinn er ekki of stór. Ég vildi bara óska að ég hefði nógu góða heilsu til að vera með í þessu allan tíman. En svona er þetta bara, maður getur ekki allt en maður getur samt eitthvað.

Nú fer að líða að fyrstu keppni ársins í motocross og er hann Alexander voða spenntur. Sjálf hlakka ég voða mikið til að sjá hvernig hann mun standa sig og ég efa það ekki að hann mun standa sig mjög vel. Það er Kawasaki æfing á eftir í Álfsnesi en hjólið er eitthvað bilað en hann Baldur er að reyna að laga það svo að við mætum aðeins of seint. Það á ekki að skaða neitt en ég er samt búin að láta Óla vita svo að við erum ekkert stressuð. 

Ég get varla beðið eftir að sjá litlu tvíbura englana um helgina. Ég veit ekki hvort að þeir verði enn á spítalanum en það kemur í ljós þegar við komum norður. Það er pínu skrítið að vita til þess að það séu tvíburar í fjölskyldunni en mér finnst það rosalega gaman.Og það skemmtilegasta við það er að þau Elvar og Inga skulu fá tvo stráka eftir að þrá alla vega einn. Þau eiga nú tvær prinsessur svo að það er gaman að eiga líka tvo prinsaSmile Ég bara hálf öfunda þau en samt ekki af því að ég er hætt barneignum og nú er kominn tími fyrir mig að huga að heilsunni hjá mér og Helenu. Annars er hún Helena búin að vera mjög hress þannig að ég er mjög vongóð um að hún sé að ná sér að fullu. Enda er hún  búin að vera mjög dugleg og algjör hetja í gegnum öll veikindin. Hún kvartar nánast aldrei ef að hún er eitthvað veik nema þegar hún fær í eyrun enda er það alveg hrikalega sárt. Svo þegar hún meiðir sig eitthvað þá vill hún auðvitað fá prinsessu plástur sem að ég á auðvitað handa henni.

En jæja ég ætla núna að reyna að standa upp og fara út en ég verð að reyna að slaka vel á svo að ég fái nú ekki enn eitt kastið. Ég verð samt að segja frá því að hann Benjamín vinur hans Andra spurði mig þegar ég sótti Helenu hvort að ég væri með ms og hvort að ég hafi verið í sjónvarpinu og ég svarði honum auðvitað já og þá spurði hann mig hvort að ég fengi oft kast og ég svaraði bara stundum. Mér fannst það alveg nóg, ég vildi nú ekki fara að lýsa mínum veikindum fyrir 8 ára gömlu barni. Þau skilja þetta ekkert frekar en ég sjálf. Mér fannst þetta svolítið erfitt en ég má ekki fela þetta fyrir neinum. Ms er minn fylgifiskur og ég verð að lifa með því.

En jæja nú kveð ég í dag alla vega, það er aldrei að vita nema að ég skrifa eitthvað meira á morgun. Aðeins tíminn mun leiða það í ljós. 


Góð helgi á enda komin

Það var svo sannarlega gaman fyrir norðan um helgina. Baldur og Alexander hjóluðu svo mikið að hendurnar á þeim er ein blaðra. Úfff það getur ekki verið þægilegt. Ég, Andri og Helena vorum bara heima á meðan að hjálpa tengdó eitthvað og nutum góða veðursins til hins ýtrasta, enda komin með smá lit í andlitið. En Helena varð 4 ára í gær og eyddum við afmælisdeginum í bílferð suður. Kannski ekki besti afmælisdagurinn en hún fékk svo smá pakka þegar við komum heim og fórum við að föndra með perlunum sem að hún fékk. Hún bjó til fallegt hálsmen handa sér og Andri líka.

Við erum búin að vera svo þreytt eftir ferðina að það er ekki hægt að lýsa því með orðum. Við vorum sofnuð fyrir kl. 12 í gærkvöldi sem er að vísu mjög seint en við erum svo vön að fara að sofa frekar seint þannig að þetta var snemma hjá okkur.

Ég er búin að vera mjög slæm af höfuðverk frá því fyrir helgi og sem betur fer er ég búin að fá mígreni lyf við því en þau mættu samt alveg virka betur.  En ég lifu-i enn svo að þetta var ekki of slæmt.

En ég hef smá fréttir að færa. Hann Elvar bróðir Baldurs var að verða frá því að vera tveggja barna faðir í að verða 4 barna faðir á fimmtudaginn. Þetta var þannig að Inga átti ekki að eiga fyrr en 20 júní skildist mér en hún missti vatnið kl. 4 eða 5 um nóttina og var flutt með sjúkra flugi suður út af því að þetta voru fyrirburar. En viti menn hún fékk tvo litla stráklinga, tvo engla þannig að nú er fjölskyldan ekki lengur 4 manna heldur 6 manna. Við gáum engan vegin séð þá af því að við komum það seint suður og þau verða útskrifuð í dag og fara þá norður og strákarnir fara inn á sjúkrahúsið á Akureyri. En við fáum að sjá þá um næstu helgi þegar við komum norður aftur.

Ég á svo erfitt með að sitja í bílnum lengi að það er ótrúlegt. Ég verð svo pirruð í fótunum og svo kvalin eitthvað og svo er pirringurinn komin í hendurnar líka. Þetta getur verið svo sárt stundum eins og þegar við vorum á leið norður að ég fann meira að segja til í mjöðmunum. Ég átti bara erfitt með að ganga, ég haltraði eins og ég veit ekki hvað. Mér líður stundum eins og gamalli konu þegar ég fæ þessa hel..... verki. En ég verð bara að læra að lifa með þessu víst að það er ekkert hægt að gera fyrir mig nema að dæla í mig fullt af pillum og rugli. Ég hata að taka  inn svona mikið að lyfjum.

En jæja ég ætla að reyna að fara að gera eitthvað annað en að hanga í tölvunni enda fær maður bara í bakið á að hanga mikið í henni.  

Góð síða fyrir Ms sjúklinga og aðstandendur. Það eru heilmiklar upplýsingar að finna hér www.msviewsandnews.org


Viðtalið

http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=STOD2&programID=b2fab606-e8f9-4500-a4d9-15008d8978da&mediaSourceID=d920cb12-2fc5-4773-9f05-9d4985df63a1

Loksins förum við norður

Jæja þá er komið að því að bruna norður á Akureyri. Þar munum við hjóla alla daga með krökkunum og hafa rosalega gaman og gott. Tengdamamma ætlar svo að hafa matarboð í tilefni afmælis hennar Helenu en hún verður jú 4 ára á sunnudaginn. Við ætlum að reyna okkar besta að hitta sem flesta en við verðum bara fram á sunnudag svo að maður kemst kannski ekki alveg yfir þetta allt. Það er svo mikið að fólki sem að við þurfum að heimsækja en við förum aftur norður eftir viku svo að við ættum að komast yfir eitthvað af þessu vonandi.

En loksins mun viðtalið koma í Íslandi í dag í kvöld. Ég fékk mail frá honum Sindra um að þetta myndi vera sýnt í kvöld og ég verð bara að taka hann á orðinu og vona að það sé rétt. Vonandi kem ég líka vel út.

En þetta verður bara stutt og laggott í dag og ég kveð alla vega í bili. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband